Sundbolur Eyglóar rifnaði rétt fyrir sundið og það var enginn tími fyrir hana til að redda sér nýjum sundbol.
„Ég var að laga sundbolinn og toga í hann. Þá allt í einu heyrði ég hann „poppa". Ég var bara í stresskasti þarna inn í klefanum," sagði Eygló Ósk.
„Allar stelpurnar voru að segja að það væri hægt að bíða eftir mér en ég sagði að það væri ekki nægur tími. Ég var nefnilega bara í næsta riðli sem átti að labba inn," sagði Eygló.
„Ég labbaði bara inn og hélt utan um rassinn. Þetta er góð saga útaf því að ég komst inn en annars væri þetta ekki góð saga," sagði Eygló.
Þetta háði Eyglóu augljóslega fyrstu 50 metrana en hún átti mjög góða seinni ferð og þó að Íslandsmetið hafi ekki fallið synti hún nógu hratt til að ná sextánda og síðasta sætinu inn í undanúrslitin sem fara fram í nótt.
Hér fyrir neðan má sjá mynd sem Magnús Tryggason, flokkstjóri í sundinu, tók af rifunni á sundbol Eyglóar.
