Erlent

Baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks í Bangladess myrtur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/epa
Helsti baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks í Bangladess fannst myrtur á heimili sínu í dag. Skæruliðahópur tengdur Íslamska ríkinu hefur lýst yfir ábyrgð á morðinu og fleiri morðum í landinu undanfarnar vikur. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Xulhaz Mannan var starfsmaður bandaríska sendiráðsins í Bangladess auk þess að ritstýra tímariti hinsegin fólks í landinu. Hann fannst ásamt öðrum karlmanni á heimili sínu en þeir höfðu verið hoggnir til bana.

Samkynhneigð er ólögleg í landinu en mennirnir tveir höfðu báðir komnir út úr skápnum. Þeir trúðu því og börðust fyrir því að ef nafntogaðir einstaklingar viðurkenndu kynhneigð sína fyrir alþjóð myndi málefnið ekki vera tabú.

Frá því í febrúar hefur fjöldi manna sem tilheyra minnihlutahópum fundist myrtir í landinu. Fyrir tveimur dögum síðan fannst háskólaprófessor myrtur á heimili sínu. Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á morðinu og sagði að ástæðan væri trúleysi prófessorsins. Þrátt fyrir yfirlýsinguna hafa stjórnvöld í landinu lýst því yfir að fylgismenn samtakanna sé ekki að finna í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×