Fjöldi fanga í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu er nú kominn niður fyrir hundrað, í fyrsta sinn frá því að fangelsið opnaði árið 2002. Fækkunin er liður í því að loka fangelsinu, líkt og Barack Obama Bandaríkjaforseti fyrirskipaði þegar hann tók við embætti.
Tíu karlmenn frá Jemen losnuðu í vikunni úr fangelsinu. Flestir þeirra höfðu setið inni í að minnsta kosti tíu ár, án þess að mál þeirra hefði nokkurn tímann farið fyrir dómstóla. Þeir voru fluttir til Óman í ljósi stríðsástandsins í heimalandi þeirra.
Um er að ræða stærsta einstaka flutning fanga úr fangelsinu frá upphafi. Nú eru um 93 fangar fangelsinu en þegar mest lét voru þar um 780 manns.
Mannréttindasamtök víða um heim hafa fagnað þessari ákvörðun og binda vonir við að fangelsinu verði lokað fyrir fullt og allt í ár.
Föngum fækkar í Guantanamo
sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
