Denver Broncos er komið áfram í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar og mætir þar New England Patriots á sunnudagskvöldið. Þetta varð ljóst eftir 23-16 sigur Denver á Pittsburgh Steelers í gærkvöldi.
Það er því ljóst að tveir af bestu leikstjórnandum sögunnar munu mætast í enn eitt skiptið á sunnudagskvöldið þegar Peyton Manning mætir Tom Brady.
Þetta er í sautjánda skipti sem þessir kappar mætast en rimma þeirra er ein sú allra frægasta í sögu bandarískra íþrótta.
Pittsburgh var með undirtökin lengi vel í leiknum í nótt og var yfir, 13-12, þegar innan við tíu mínútur voru eftir af leiknum. Fitzgerald Toussaint, hlaupari Pittsburgh, tapaði þá boltanum og Denver skoraði skömmu síðar eina snertimark sitt í leiknum er hlauparinn CJ Anderson skoraði af stuttu færi.
Hvorki Manning né Ben Roethlisberger, leikstjórnandi Pittsburgh, köstuðu fyrir snertimarki í leiknum í nótt sem segir sitt um gang leiksins.
Sparkarinn Brandon McManus skoraði hins vegar fimm vallarmörk í leiknum og það síðasta tryggði endanlega sigur Denver í leiknum.
Arizona Cardinals og Carolina Panthers eigast við í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar en báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Sunnudagur 24. janúar:
20.05: Denver Broncos - New England Patriots
23.40: Carolina Panthers - Arizona Cardinals

