Skoðun

Lögleysa Orkustofnunar

Árni Finnsson skrifar
Nýverið lagði Orkustofnun til við verkefnisstjórn þriðja áfanga Rammaáætlunar að hún taki fyrir tvo orkukosti – Norðlingaölduveitu og Kjalölduveitu – sem eru á landsvæði sem þegar er í verndarflokki áætlunarinnar. Svæðið eru hin margrómuðu Þjórsárver.

Samtals leggur Orkustofnun fram 80 virkjunarkosti fyrir verkefnisstjórn þriðja áfanga en dró til baka þrjá kosti, þar af tvo í verndarflokki sem augljóslega eru inni í Vatnajökulsþjóðgarði. Gefur auga leið að verkefnisstjórnin mun ekki komast yfir að flokka alla þessa kosti og vekur furðu að stofnunin leggi einnig fram til mats virkjunarkosti í verndarflokki – samkvæmt niðurstöðum annars áfanga, en sú flokkun hefur verið staðfest af Alþingi með þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það á einkum við um Þjórsárver.

Réttur lögmannsstofa hefur fyrir hönd Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarsamtaka Suðurlands og Vina Þjórsárvera skrifað verkefnisstjórninni bréf þar sem bent er á að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (nr. 48/2011) kveði á um að að lokinni gerð rammaáætlunar skuli stjórnvöld hefja vinnu við friðlýsingu orkukosta/svæða í verndarflokki. Engin tvímæli eru um að Þjórsárver eru í verndarflokki eða að undirbúningur að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum er löngu hafinn.

Jafnframt er bent á að samkvæmt lögskýringargögnum felur skipan virkjunarkosta í verndarflokk „…ekki í sér friðlýsingu í hefðbundnum skilningi heldur tímabundna vernd gagnvart orkuvinnslu á þeim svæðum sem afmörkuð eru í verndarflokknum á meðan friðlýsingarferli samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, fer fram…“

Krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands er því að verkefnisstjórnin hafni tillögu Orkustofnunar enda beri, lögum samkvæmt, að friðlýsa allt svæðið vestan Þjórsár, þ.m.t. verin og hina stórkostlegu fossa efst í ánni, Dynk og Gljúfurleitarfoss.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×