Körfubolti

Kristinn fékk flotta afmæliskveðju á síðu Stella Azzurra Roma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Pálsson í leik með Stella Azzurra.
Kristinn Pálsson í leik með Stella Azzurra. Vísir/Getty
Körfuboltamaðurinn Kristinn Pálsson heldur upp á átján ára afmælið sitt í dag en hann spilar í vetur sitt fyrsta tímabil með Marist háskólanum í Bandaríkjunum.

Kristinn er frá Njarðvík en hefur undanfarin ár spilað með ítalska unglingaliðinu Stella Azzurra frá Róm. Hann hefur alla tíð verið áberandi með yngri landsliðum Íslands og var í stóru hlutverki með átján ára landsliðinu síðasta sumar.

Kristinn var fyrirliði ítalska unglingaliðsins á síðasta tímabili sínu þegar Stella Azzurra Roma liðið varð tvöfaldur meistari í keppni 19 ára liða.

Stella Azzurra Roma liðið vann líka sinn riðil í Europleague framtíðarleikmanna og fór alla leið í úrslitakeppnina í Madrid.

Kristinn Pálsson lék með 18 ára landsliðinu síðasta sumar og var þá með 18,2 stig, 7,7 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í Evrópukeppninni þar sem Ísland endaði í sjötta sæti í b-deildinni.

Forráðamenn Stella Azzurra Roma eru ekki búnar gleyma Íslendingnum þótt að hann sé farinn að spila körfubolta hinum megin við Atlantshafið.

Kristinn fær nefnilega flotta afmæliskveðju á fésbókarsíðu Stella Azzurra Roma í dag þar sem hann er fullvissaður um að menn í Róm séu ekki búnir að gleyma honum.

Kristinn Pálsson hefur byrjað fyrstu átta leiki sína með Marist-skólanum sem er ekki sjálfgefið hjá leikmanni á fyrsta ári en í þeim hefur hann skorað 5,8 stig og tekið 3,9 fráköst að meðaltali.

Kristinn mun ekki spila leik á afmælisdeginum sínum en næsti leikur er á sunnudaginn á móti Army West Point skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×