Arnar Davíð Jónsson úr Keilufélagi Reykjavíkur stóð sig frábærlega á Norðurlandamóti ungmenna í keilu sem fram fór um helgina í Hönefoss í Noregi.
Arnar Davíð Jónsson varð í efsta sæti hjá drengjum í samanlögðu (All Events) á mótinu með 224,4 í meðaltal en þar eru tekin saman úrslit úr öllum keppnum mótsins. Arnar Davíð gerði þar meðal annars betur en Svíinn Jesper Svensson sem er í fimmta sæti á Evróputúrnum í ár.
Arnar Davíð náði stórglæsilegum árangri á mótinu og spilaði m.a. fullkominn leik eða 300 pinnar í einum leik en það er hans þriðji 300 leikur í keppni.
Einnig varð Arnar Davíð í öðru sæti í einstaklingskeppninni en keppt var á mótinu í einstaklings-, tvímennings-, liða- og svokallaðri masters keppni.
Þetta er einn besti árangur sem íslenskur keiluspilari hefur náð á Norðurlandamóti og er framtíðin sannarlega björt hjá Arnari Davíð.
Keilusamband Ísland sendi alls sex þátttakendur í mótið en auk Arnars Davíðs voru það Andri Frey Jónsson (KFR), Guðlaugur Valgeirsson (KFR), Einar Sigurður Sigurðsson (ÍA), Hafdís Pála Jónasdóttir (KFR) og Katrín Fjóla Bragadóttir (KFR).
