Skoðun

Hlutverk forseta Íslands

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Í framhaldi af grein Stefáns Jóns Hafstein sl. helgi blanda ég mér í umræðuna. Sem frambjóðandi 2012 bý ég yfir margs konar reynslu og stefnumótun sem á erindi til lesenda Fbl. Hlutverk forsetans skilgreindi ég svona – og tel orðin í góðu gildi:

Við viljum aukna bjartsýni og jafnrétti. Við viljum að mannúð og heiðarleiki sé í fyrirrúmi. Við viljum sjá sanngirni og ábyrgð í verki. Forseti Íslands er þjóðkjörinn embættismaður sem heldur trúnað við kjósendur sína, óháð stjórnmálaskoðunum þeirra, og leitast við að vinna traust sem flestra landsmanna. Forsetinn getur stuðlað að því sem við viljum með orðum og þeim gerðum er ákvæði stjórnarskrár lýsa í heild sinni. Viðfangsefni forsetans eru mörg og misflókin. Hann stuðlar að lýðræðislegum lausnum með sem mestum stuðningi í samfélaginu. Hann sameinar í störfum sínum almenn stjórnmál í víðum skilningi, önnur samfélagsmál, siðræna umræðu og sendistörf sem þjóðarfulltrúi í útlöndum. Hann eflir samstarf við aðrar þjóðir.

Ég legg áherslu meðal annars á eftirfarandi atriði:

Samræður milli þjóðfélagshópa um hag og framtíð samfélags okkar.

Skilvirkt, fjölbreytt og einstaklingsmiðað menntakerfi. Atvinnu og menningarstarf ungs fólks.

Styrka samhjálp handa öllum til heilbrigðs lífs án tillits til kyns, kynhneigðar eða húðlitar.

Sérþekkingu vísindanna og nýsköpun.

Jafnrétti og mannréttindi á grunni Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og fleiri samþykkta.

Aukið viðnám gegn náttúruvá og áhrifum hlýnunar andrúmsloftsins.

Blómlega landsbyggð og styrk bæjarfélög. Sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Kynningu heima og heiman á stöðu og eðli íslenskrar náttúru.

Kynningu heima og heiman á íslenskri og alþjóðlegri menningu.

Samræður sem flestra um framtíð veraldarinnar, frið, frelsi og lýðræði.

Öflugt samstarf Norðurlanda.

Jafnræði þjóða og allra trúarbragða og lífsskoðana.

Aukin samskipti við þróunarlönd.

Sérstöðu Íslands í málefnum heimskautasvæða.

Lýðræðislegar ákvarðanir um helstu samskipti við aðrar þjóðir.




Skoðun

Sjá meira


×