Atvinnuíþróttamaðurinn Ryan Mallett er atvinnulaus eftir að hafa orðið uppvís að ótrúlegu agaleysi.
Hann missti af flugi síns liðs, Houston Texans, til Miami síðasta laugardag. Hann reddaði sér því sjálfur til Miami með áætlunarflugi.
Þjálfarinn hans, Bill O'Brien, vildi reka Mallett strax á laugardag en yfirmönnum hans fannst það ekki sniðugt þar sem það væri leikur daginn eftir og þeir vildu setja öryggið á oddinn.
Eftir leikinn var Mallett aftur á móti rekinn og Texans er því í leit að nýjum leikstjórnanda til þess að styðja við bakið á Brian Hoyer.
Mallett og Hoyer hafa skipst á því að vera aðalleikstjórnandi Texans í vetur en nú er Mallett í atvinnuleit og spurning hvort eitthvað félag vill taka áhættuna á því að semja við hann.
