Íslenski boltinn

Kristján Guðmundsson ráðinn þjálfari Leiknis

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Guðmundsson er kominn aftur í B-deildina eftir 14 ára fjarveru.
Kristján Guðmundsson er kominn aftur í B-deildina eftir 14 ára fjarveru. vísir/daníel
Kristján Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari Keflavíkur, hefur verið ráðinn þjálfari Leiknis sem féll úr Pepsi-deild karla í sumar.

Þetta kemur fram á heimasíðu Leiknis, en Kristján stýrði Keflavík í Pepsi-deildinni í sumar áður en hann var látinn fara.

Hann tekur við starfinu af tvíeykinu Frey Alexanderssyni og Davíð Snorra Jónassyni sem sögðu upp störfum eftir að liðið féll aftur niður í 1. deild. Þeir komu Leikni upp í úrvalsdeildina í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Kristján er þrautreyndur þjálfari sem hefur þjálfað Þór, Keflavík og Val, en hann gerði Keflavík að bikarmeisturum árið 2006 og fór með liðið í bikarúrslitin í fyrra. Þá stýrði hann einnig HB í Færeyjum til meistaratitils árið 2010.

Þetta er í fyrsta sinn sem Kristján þjálfar lið í næst efstu deild síðan 2001. Hann var þá þjálfari Þórs á AKureyri og kom liðinu upp í efstu deild.

„Leiknir er virkilega ánægt með þessa niðurstöðu í þjálfaramálum og væntir mikils af samstarfinu.  Kristján bjóðum við hjartanlega velkominn til starfa!“ segir á heimasíðu Leiknis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×