Innlent

Höfuðborgarbúar þurfa að grafa upp sköfuna

Atli Ísleifsson skrifar
Þurrt verður í dag og bjart þannig að það gæti einnig þurft að skafa í fyrramálið.
Þurrt verður í dag og bjart þannig að það gæti einnig þurft að skafa í fyrramálið. Vísir/E.Ól.
„Eftir því sem ég best veit þá er þetta í fyrsta sinn í haust sem höfuðborgarbúar þurfa að skafa af bílunum sínum,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstöfunni, í samtali við Vísi.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem voru snemma á ferð í morgun þurftu margir að skafa af bílum sínum á leið sinni til vinnu.

Haraldur segir að það hafi rignt dálítið seinnipartinn í gær og svo hafi verið léttskýjað í nótt. „Þá fraus á jörðinni. Það var ekki frost í mælahæð, það er í tveggja metra hæð, en eins og gerist í svona bjartviðri þá fraus á bílum og á jörðinni.“

Þannig að höfuðborgarbúar þurfa að fara að grafa upp sköfurnar?

„Já, svona seint í september er það bara eðlilegt. Það eru þessar aðstæður að þegar það er léttskýjað á nóttunni þá verður svona kalt,“ segir Haraldur.

En hvernig líta næstu nætur út?

„Nú verður þurrt í dag og bjart þannig að það gæti þurft að skafa í fyrramálið þó að minni líkur séu á því. Svo er spáð rigningu seint á morgun, þá mildara loft, þannig að næstu nætur þar á eftir þá ættu menn að geta hvílt sköfuna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×