Landslið Tékklands í körfubolta komst í dag í fyrsta sinn sem sjálfstætt ríki í 8-liða úrslit EM í körfubolta, Eurobasket, en 16-liða úrslitin kláruðust í dag. Ásamt Tékklandi tryggðu Ítalía, Serbía og Litháen sér sæti í 8-liða úrslitunum.
Tékkland mætti Króatíu í Lille, Frakklandi, í fyrsta leik dagsins og náðu þeir undirtökunum strax í fyrsta leikhluta. Tókst liðinu að vinna fyrstu þrjá leikhlutana og leiða 65-43 eftir þrjá leikhluta en Króötum tókst að kroppa eitt stig af forskoti Tékka í fjórða leikhluta. Lauk leiknum með 80-59 sigri Tékklands.
Ítalska liðið leit vel út í 30 stiga sigri á Ísrael í dag en ítalska liðið gerði út um leikinn í þriðja leikhluta en staðan var 68-39 eftir þrjá leikhluta.
Serbar lentu í töluverðum vandræðum að hrista frá sér Finnland í leik liðanna í dag en Serbar unnu alla fimm leiki sína í A-riðlinum. Leiddu Serbar með fimm stigum í hálfleik en þeir juku forskot sitt í seinni hálfleik og unnu að lokum þrettán stiga sigur.
Boðið var upp á heldur meiri spennu í lokaleik dagsins þar sem Litháen mætti Georgíu. Georgía leiddi með einu stigi fyrir lokaleikhlutan en Litháum tókst að snúa leiknum sér í hag í lokaleikhlutanum.
Úrslit kvöldsins:
Króatía 59-80 Tékkland
Serbía 94-81 Finnland
Ísrael 52-82 Ítalía
Litháen 85-81 Georgía
8-liða úrslitin:
Frakkland - Lettland
Spánn - Grikkland
Serbía - Tékkland

