Þetta var sögulegur dagur fyrir íslenskan körfubolta og íslenskt íþróttalíf þegar íslenskt landslið spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti í einni vinsælustu íþrótt heims. Íslensku strákarnir töpuðu reyndar naumlega fyrir Þýskalandi en stóðu sig mjög vel á móti stjörnuprýddu þýsku liði.
Menntamálaráðherrann Illugi Gunnarsson mætti á Urban Spree í gær nýkominn frá Amsterdam þar sem íslenska fótboltalandsliðið vann sögulegan sigur.
Einar Bollason og fleiri gamlar goðsagnir voru að sjálfsögðu á staðnum, Tommi á Búllunni grillaði ofan í liðið og þarna voru líka Svali Björgvinsson, Hannes S. Jónsson formaður, Guðbjörg Norðfjörð varaformaður og nokkrir af leikjahæstu landsliðsmönnum Íslands frá upphafi eins og þeir Guðmundur Bragason og Herbert Arnarson.
Það var hinsvegar frú Dorrit Moussaieff sem stal senunni en hún mætti klædd íslenska landsliðsbúningnum og heilsaði öllum sem vildu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dorrit Moussaieff er á stórmóti hjá íslensku landsliði og það var meðal annars ógleymanlegt þegar hún mætti á Ólympíuleikana í Peking.
Herra Ólafur Ragnar Grímsson var með henni þá en núna vara hún bara ein þar sem forsetinn var upptekinn heima á Íslandi.
Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegar myndir sem Valgarður Gíslason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, tók af Dorrit Moussaief á Urban Spree í gær.
Íslendingar í Berlín ætla að hittast fyrir leik á Urban Spree líkt og í gær. Ísland mætir Ítölum klukkan 18.00 að staðartíma í Berlín. Af gefnu tilefni hvetur KKÍ áhorfendur til að mæta tímanlega til að komast hjá töfum við innganginn á leikstað.



