Innlent

45 daga fangelsi fyrir að hylma kortasvindl

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Icelandair fékk fargjaldið ekki greitt og gat ekki selt í sæti mannsins.
Icelandair fékk fargjaldið ekki greitt og gat ekki selt í sæti mannsins. vísir/anton
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt lettneskan karlmann á þrítugsaldri, Vitaljis Deksins, í 45 daga fangelsi fyrir hylmingu. Deksins tók við miðum í flug á vegum Icelandair sem aflað hafði verið á ólögmætan hátt. Andvirði miðanna var rúmlega 235 þúsund krónur.

Farmiðinn sem um ræðir var bókaður hinn 20. júní af óþekktum aðila í flug frá Lettlandi til Bandaríkjanna með viðkomu í Finnlandi og Íslandi. Deskins tók við miðunum og kom hingað til lands hins 21. júní síðastliðinn. Einnig átti hann miða sömu leið til baka dagana 28. og 29. júní.

Farmiðarnir voru greiddir með greiðslukorti ástralsks ríkisborgara án heimildar eiganda kortsins. Í kjölfarið fékk hann rafræna farmiða ásamt greiðslunótu á tölvupóstfang sitt og notaði hana til að komast í ferðina. Icelandair varð af greiðslu fyrir flugsætið sem hann tók.

Ákærði játaði brot sitt skýlaust. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá 22. júní til 29. júlí og á því eftir að sitja rétt rúma viku refsingarinnar af sér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×