Þetta er aðeins í þriðja skipti sem þessi lið mætast í bikarúrslitum. Það gerðist fyrst árið 1966 þegar KR vann 1-0 með marki Ársæls Kjartanssonar.
Liðin mættust aftur 24 árum síðar en 240 mínútur og vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit.
Bjarni Sigurðsson átti hvað stærstan þátt í sigri Valsmanna en hann varði frábærlega í báðum leikjum og varði svo tvær vítaspyrnur KR-inga í vítaspyrnukeppninni í seinni leiknum.
Vítaspyrnukeppnina má sjá í spilaranum hér að ofan.

KR sótti meira og landsliðsfyrirliðinn og fyrrverandi Valsarinn Atli Eðvaldsson var nálægt því að skora þegar hann skallaði í slá.
Skömmu síðar kom Rúnar Kristinsson KR-ingum yfir með marki beint úr aukaspyrnu sem Ragnar Margeirsson fiskaði. Rúnar skoraði einnig í bikarúrslitaleiknum 1994, þar sem KR vann 2-0 sigur á Grindavík og tryggði sér þar með sinn fyrsta stóra titil í 26 ár.
KR-ingum hefndist fyrir að nýta ekki færin því á 74. mínútu jafnaði Þórður Birgir Bogason metin fyrir Val sem lék án fyrirliða síns, Sævars Jónssonar, sem var í leikbanni. Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja leikinn.
Þar fengu KR-ingar færin, sem féllu flest í skaut varamannsins Björns Rafnssonar, en þeir fundu sem fyrr ekki leiðina framhjá Bjarna sem var í miklu stuði.

Um miðjan seinni hálfleik kom upp sérstök staða þegar Þorvarður Björnsson, dómari leiksins, meiddist og þurfti að fara af velli. Línuvörðurinn Guðmundur Stefán Maríasson tók við flautunni af Þorvarði og varadómarinn Pjetur Sigurðsson tók stöðu Guðmundar á línunni.
Bæði lið skoruðu úr þremur fyrstu spyrnum sínum í vítakeppninni en Bjarni varði frá Birni í fjórðu spyrnu KR-inga. En Ólafur Gottskálksson, markvörður KR, lék sama leik þegar hann varði frá Snævari Hreinssyni í sömu umferð.
Atli skoraði því næst fyrir KR en Gunnar Már Másson jafnaði í 4-4 og því þurfti að grípa til bráðabana. Þar byrjaði Bjarni á því að verja frá Gunnari Skúlasyni og kom Valsmönnum þar með í kjörstöðu.
Sigurjón Kristjánsson átti mögulega að tryggja Val sigurinn með því að skora úr næstu spyrnu sem og hann gerði. Valsmenn fögnuðu vel og innilega í myrkrinu á Laugardalsvellinum en ekki var búið að setja upp fljóðljós á þjóðarleikvanginum á þessum tíma.

KR-ingar sátu eftir með sárt ennið, ekki einungis í bikarkeppninni, heldur einnig í 1. deildinni þar sem liðið tapaði Íslandsmeistaratitlinum til Fram á markatölu.
Vítaspyrnukeppnin gekk þannig fyrir sig:
Pétur Pétursson - 1-0 fyrir KR
Sævar Jónsson - 1-1
Ragnar Margeirsson - 2-1
Steinar Adolfsson - 2-2
Sigurður Björgvinsson - 3-2
Anthony Karl Gregory - 3-3
Björn Rafnsson - Bjarni ver
Snævar Hreinsson - Ólafur ver
Atli Eðvaldsson - 4-3
Gunnar Már Másson - 4-4
Gunnar Skúlason - Bjarni ver
Sigurjón Kristjánsson - 4-5