Atli Viðar Björnsson komst í hundrað marka klúbbinn í byrjun sumars en hefur síðan fengið fá tækifæri, allt of fá að mati flestra.
Mörk hans í tveimur síðustu leikjum hafa hins vegar spilað stórt hlutverk í að koma FH-vélinni aftur í gang í baráttunni um að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn í Krikann. Fyrir þessa tvo sigurleiki í röð hafði FH aðeins unnið einn af fjórum leikjum frá því um miðjan júní.
Atli Viðar skoraði sigurmarkið á móti Keflavík eftir að hafa komið inn á sem varamaður níu mínútum áður og markið hans í uppbótartíma fyrri hálfleiks á móti Val á miðvikudagskvöldið var eins klassískt Atla Viðars mark og þau gerast. Þar er reyndar af nógu að taka enda kappinn kominn með 102 mörk fyrir FH í efstu deild.

Það kemur kannski ekki mörgum á óvart að það skuli einmitt vera Atli Viðar Björnsson sem er efstur á þessum lista. Hann er rétt á undan Fjölnismanninum Mark Charles Magee sem skoraði sigurmark Fjölnis á móti KR í fyrrakvöld. Báðir voru þeir Atli Viðar og Magee að skora í öðrum leiknum í röð en Mark Charles Magee hefur komið inn á sem varamaður í báðum leikjum sínum.
Mark Charles Magee hefur eins og Atli Viðar fengið fá tækifæri en hefur lagt það í vana sinn í sumar að nýta sér það vel þegar Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, veðjar á hann. Frammistaðan á móti Stjörnunni í Garðabænum í byrjun júní, þar sem hann skoraði tvö góð mörk, breytti að því er virðist litlu um það. Magee hefur aðeins byrjað inn á í tveimur Pepsi-deildarleikjum síðan þá.
Hann var ekki í byrjunarliðinu á móti KR þó að Fjölnir væri án Þóris Guðjónssonar en beið klár á bekknum og skoraði síðan mark sem hjálpaði ekki aðeins Fjölni að komast upp töfluna heldur gæti einnig haft miklar afleiðingar fyrir titildrauma KR-liðsins.
FH á tvo af þremur hæstu á þessum lista því Kristján Flóki Finnbogason er í þriðja sæti og þar með á undan Valsmanninum Patrick Pedersen, markahæsta leikmanni deildarinnar. Þórir Guðjónsson er síðan í fimmta sætinu og Skagamaðurinn Garðar Gunnlaugsson er sjötti.
Fæstar mínútur milli marka í Pepsi-deildinni hjá leikmönnum sem hafa skorað 4 mörk eða fleiri í sumar.
1. Atli Viðar Björnsson, FH 94,8
2. Mark Charles Magee, Fjölnir 101,8
3. Kristján Flóki Finnbogason, FH 135,3
4. Patrick Pedersen, Val 145,3
5. Þórir Guðjónsson, Fjölni 147,1.