Fótbolti

Donald Trump að fá friðar­verð­laun frá FIFA?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, (t.h.) með heimsmeistarabikarinn í hönd við hlið Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu. 
Gianni Infantino, forseti FIFA, (t.h.) með heimsmeistarabikarinn í hönd við hlið Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu.  EPA/ANNABELLE GORDON

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur búið til ný friðarverðlaun sambandsins sem veitt verða í fyrsta sinn við dráttinn fyrir heimsmeistaramót karla í Washington D.C.

Dregið verður í riðla fyrir HM 2026 sem fer fram næsta sumar í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Nýju verðlaunin, sem kallast Friðarverðlaun FIFA, munu „viðurkenna einstakt framlag til friðar,“ sagði stjórn knattspyrnusambandsins á miðvikudag.

„Í sífellt óstöðugri og sundraðri heimi er grundvallaratriði að viðurkenna framúrskarandi framlag þeirra sem leggja hart að sér til að binda enda á deilur og leiða fólk saman í friðaranda,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fékk ekki Friðarverðlaun Nobels og þótti vera sniðgenginn að mati síns fólks en fyrir þá sem lesa á milli línanna þá blasir það við að Trump fái þessi fyrstu Friðarverðlaun FIFA frá nánum vini sínum Infantino.

FIFA sagði að verðlaunin, sem Infantino mun afhenda í ár, verði veitt árlega „fyrir hönd stuðningsfólks um allan heim.“

FIFA styrkti nýlega tengslin við Trump með því að skipa dóttur hans, Ivönku, í stjórn hundrað milljóna dala menntunarverkefnis sem er að hluta til fjármagnað með miðasölu á HM 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×