Grindavík vann 2-0 sigur á HK í lokaleik sjöundu umferðar 1. deildar karla í fótbolta á heimavelli sínum í kvöld.
Jósef Kristinn Jósefsson, vinstri bakvörðurinn öflugi, skoraði fyrra markið á 63. mínútu leiksins og Slóveninn Tomislav Misura það síðara í uppbótartíma, 2-0.
Grindvíkingar, sem hafa ekki byrjað mótið nógu vel, eru nú búnir að vinna tvo leiki í röð og lyfta sér með sigrinum úr níunda sæti og upp í það sjötta. Liðið er með níu stig eftir sjö leiki.
Allt gengur þó á afturfótunum hjá Þorvaldi Örlygssyni og lærisveinum hans í HK, en tapið í kvöld var það fimmta í röð í deildinni.
HK byrjaði frábærlega í sumar og vann fyrstu tvo leikina, en hefur ekki náð í stig síðan og er í tíunda sæti með sex stig eftir sjö umferðir.
Upplýsingar um markaskorara fengnar frá úrslit.net.
Fimmta tap HK í röð
Tómas Þór Þórðarson skrifar
