Sigmundur Davíð prýðir forsíðu DV sem dreift er ókeypis í hús í dag. Hann segir engar líkur á að kosningar fari eins og kannanir sýni nú. Færi svo, að fylgi Pírata fengi yfir 30% fylgi, „þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, minnir ráðherrann á að flokkurinn sé í raun og veru til þótt vafalítið sé um óþolandi flugu að ræða í tjaldinu. Kvittar hún undir sem Birgitta Moskító.
„Í fyrsta lagi vegna þess, eins og ég nefndi áðan, að ég tel engar líkur á að kosningar fari eins og kannanir nú. Í öðru lagi vegna þess að ef þær gerðu það og Píratar fengju 30–40 prósenta fylgi þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“
Ráðherrann segir áhyggjuefni hve langt til vinstri Samfylkingin hafi haldið sig undir stjórn síðustu tveggja formanna. Vöntun sé á borgaralegum krataflokki með sterk tengsl við verkalýðshreyfinguna.
„Samfylkingin breyttist á einhverjum tímapunkti frá því að vera jafnaðarmannaflokkur í að verða flokkur sem ætlaði að reka sig fyrst og fremst út á það að fylgja skoðanasveiflum frá degi til dags. Það gekk ekki nógu vel og með innkomu Jóhönnu Sigurðardóttur var flokkurinn færður mjög hart til vinstri. Ég hélt að Árni Páll myndi færa flokkinn aftur inn á borgaralegu hliðina. Hann gerði það ekki, en samt virðast vinstri sinnuðustu öflin í flokknum hafa ætlað að setja hann af.“