Björgvin Stefánsson skoraði þrennu þegar Haukar unnu öruggan 4-0 sigur á Gróttu í fyrsta leik 7. umferðar í 1. deild karla í fótbolta.
Þetta er þriðji sigur Hauka í sumar en lærisveinar Luka Kostic eru komnir upp í 6. sæti deildarinnar með níu stig.
Aron Jóhannsson kom Haukum yfir á 43. mínútu og eftir aðeins fjögurra mínútna leik í seinni hálfleik bætti Björgvin við marki.
Hann var aftur á ferðinni á 63. mínútu og fullkomnaði svo þrennuna á 86. mínútu.
Björgvin er nú kominn með sex mörk í 1. deildinni en aðeins Viktor Jónsson hefur skorað fleiri, eða sjö mörk.
Grótta situr í 12. og neðsta sæti 1. deildarinnar með aðeins eitt stig og markatöluna 1-16.
