KV og KR munu ekki spila á heimavelli KV heldur á aðalvelli KR-inga.
Heimavöllur KV er gervigras KR-inga. „Vallarstjórinn segir að það verði líklegast einhverjar viðgerðir á vellinum á sama tíma og leikurinn fer fram. Við verðum því að spila á varavellinum okkar," segir Magnús Örn Þórðarson, formaður KV, léttur.
Varavöllur KV er einmitt aðalvöllur KR og liðin munu því mætast þar. Það hefði hugsanlega verið freistandi fyrir KV að gera KR lífið leitt með því að spila á gervigrasinu en félagið hefur ekki efni á því.
„Rekstur deildarinnar er erfiður með miklum ferðalögum og við missum tekjur á því að spila á gervigrasinu. Þess vegna færum við leikinn yfir," segir Magnús.
KV gæti þó hugsanlega gert KR lífið leitt að einhverju leyti. Jafnvel með því að meina þeim aðgang að sínum klefa þar sem KV er heimaliðið.
„Það er ekkert útilokað í þeim efnum. Við verðum að skoða þessi mál."
