Innlent

Námsmenn erlendis kvarta til umboðsmanns Alþingis

Atli Ísleifsson skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Vísir/GVA
Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) hefur ákveðið að kæra ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra að skrifa undir nýjar úthlutunarreglur LÍN fyrir námsárið 2015-2016 til umboðsmanns Alþingis.

SÍNE telur að brotið hafi verið á sínum félagsmönnum með ákvörðun ráðherra að samþykkja reglurnar.

Samtökin segja mikilvægt að hafa einnig í huga að fyrir námsárið 2014-2015 samþykkti ráðherrann úthlutunarreglur LÍN sem fólu í sér þrenns konar skerðingu sem sérstaklega var beint gegn námsmönnum erlendis og þá óháð því á hvaða stigi náms þeir voru. „Um var að ræða skerðingu á ferðalánum, frítekjumarki og framfærslu allt að 10%.“ Með nýju úthlutunarreglunum haldi ráðherra áfram að skera niður á námsmenn erlendis.

10 prósent skerðing

„Það liggur fyrir að með úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2015-2016 er verið að skerða allt að 10% af framfærslu nemenda erlendis.

Stjórn SÍNE hefur ítrekað bent á það við LÍN og mennta- og menningarmálaráðherra að umrædd skerðing á framfærslu kemur jafnt niður á alla námsmenn erlendis óháð námsári þeirra,“ segir í kvörtuninni.

Ekki gætt að lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum

Samtökin segja að ef litið er til þeirra gífurlegu hagsmuna sem námsmenn hafa af  því að geta stundað nám sitt erlendis verði að telja þessa skerðingu, annað árið í röð, bitna verulega á hagsmunum þeirra. „Þannig er ekki að sjá að mennta- og menningarmálaráðherra eða stjórn LÍN hafi gætt að lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum við þessa breytingu.

Stjórn SÍNE telur að jafnvel þó gefa verði ráðherra og stjórnvöldum almennt svigrúm til að gera breytingar á stjórnsýsluframkvæmd þurfi þær að vera innan marka laganna og í þeim efnum mætti sérstaklega benda á að þær verða að vera byggðar á málefnalegum forsendum,“ segir í kvörtun SÍNE til umboðsmanns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×