Leikurinn var jafn framan af en Golden State fór á sprett í fjórða leikhluta með Klay Thompson fremstan í flokki. Hann skoraði fjórtán stig af sínum 26 stigum þá og tólf af síðustu sextán stigum Golden State í leiknum.
Steph Curry var hins vegar stigalaus í fjórða leikhluta en skilaði engu að síður 22 stigum í leiknum. Hjá New Orleans var Anthony Davis stigahæstur með 26 stig en hann tók tíu fráköst þar að auki.
Chicago Bulls hefur 2-0 forystu í sinni rimmu gegn Milwaukee Bucks. Chicago vann á heimavelli í nótt, 91-82.
Jimmy Butler heldur áfram að spila vel, rétt eins og hann gerði í fyrsta leiknum, og skoraði 31 stig í nótt sem er persónulegt met í úrslitakeppninni.
Derrick Rose bætti við fimmtán stigum sem komu öll í síðari hálfleik. Khris Middleton fór fyrir Milwaukee með 22 stigum.
Báðar rimmur skipta nú um vettvang og fer þriðji leikurinn í báðum fram á fimmtudagskvöldið.