Tom Brady, leikstjórnandi NFL-meistara New England Patriots, fór ekki með liðinu að hitta Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Það er löng hefð fyrir því að Bandaríkjaforseti bjóði liðunum sem hampa titlum í stærstu íþróttum Bandaríkjanna í heimsókn.
Það vakti nokkra athygli að Brady skildi ekki fara með liðinu í Hvíta húsið á dögunum. Þá var sagt að hann hafi þurft að sinna fjölskylduerindum.
Nú hefur komið í ljós að hann var á æfingasvæðinu daginn sem félagar hans voru í Hvíta húsinu. Því telja menn að Brady hafi ákveðið að skrópa í heimsóknina til Obama.
Leikmenn Patriots voru sakaðir um svindl á síðustu leiktíð og blaðafulltrúi Hvíta hússins skaut þá á Brady. Það telja fjölmiðlar líklega ástæðu fyrir því að Brady fór frekar á æfingu en í Hvíta húsið.
