
Vopnuð brjóst
Ég tók ákvörðuninni þegjandi og hljóðalaust. Fjórtán ára og óframfærin taldi ég mig lítið neitunarvald hafa. Ég beit á jaxlinn, arkaði inn sýningarpallinn og taldi niður sekúndurnar þar til allt yrði yfirstaðið. Þar til allt yrði gleymt.
Dagana eftir tískuvikuna fjölluðu innlendir sem erlendir miðlar um viðburðinn. Víða birtust myndir af tískupöllunum og var hönnuðum gert mishátt undir höfði. Það sem helst er þó minnisstætt er hve oft tiltekin stúlka í tilteknum klæðum birtist á síðum ólíkra miðla. Stundum uppstækkuð og í aðalhlutverki. Berbrjósta og fjórtán ára. Óframfærna ég.
Ég mun aldrei gleyma skömminni sem fylgdi í kjölfarið. Athugasemdunum og háðinu. Tárunum. Vanmáttarkennd fylgdi vitneskju um alla þá sem höfðu séð mig bera. Fjórtán ára, afhjúpuð og afvopnuð. En tíminn leið og myndirnar gleymdust. Internetið var ekki það svarthol sem við þekkjum í dag og samfélagsmiðlar ekki hluti þessa heims. Úrklippurnar fóru úr dreifingu og nýr fréttamatur rataði á matseðilinn.
Brjóstabyltingin #freethenipple fór vart framhjá vökulum augum í vikunni sem leið. Ung kona varð fyrir aðkasti vegna myndbirtingar af eigin brjóstum og kynsystur hennar sýndu samstöðu. Í kjölfarið bættust fleiri í hópinn. Ástæðunum fjölgaði og byltingin styrktist. Fórnarlömb hefndarkláms tóku völdin í sínar hendur, konur afneituðu vanlíðan vegna stærðar og lögunar, mæður ítrekuðu grunnhlutverk brjóstanna og enn aðrar sýndu brjóst sín í ókyngerðu samhengi - og allar skiluðu þær skömminni til föðurhúsanna.
Einhverjum þótti byltingin full víðfeðm og þar með merkingarlaus. Mér fannst margvísleikinn undirstrika mikilvægið - alla þá fjölbreyttu, manngerðu og tilgangslausu skömm sem konur bera í brjósti, vegna brjósta af brjóstumkennanlegum ástæðum.
Nútíma kvennabarátta á sér anga víða. Svo víða að stundum reynist snúið að ná samfellu og samhengi. Stundum verða árekstrar og stundum þarf að staldra við - því stundum étur byltingin börnin sín. Brjóstabyltingin ögraði viðteknum viðhorfum og hrærði í gömlum venjum. Breytingar taka tíma og fólk þarf rými til umhugsunar. Það er óábyrgt að velta ekki vöngum yfir stúlkum á mótunarárum sem vegna þrýstings beruðu sig á stafrænum miðlum. Það er óábyrgt að útiloka það óréttmæta mótlæti sem fylgt getur í kjölfarið. Berbrjósta samþykka táningsstúlkan á tískupallinum vissi vel að brjóst væru bara brjóst. Það breytti litlu um viðhorf annarra og það breytti litlu um skömmina. Það er ekki allra að leiða byltingu.
Brjóstabyltingin var falleg og kraftmikil samstöðuherferð hugrakkra kvenna. Hún snérist ekki um vilja okkar allra til að vera berbrjósta alls staðar alltaf. Hún snérist um sjálfsákvörðunarrétt og samstöðu. Hún snérist um vald til að setja mörk - og skyldu annarra til að virða þau óhikað. Hún snérist um óskilyrtan skilarétt á óréttmætri skömm. Um valdeflingu. Hún snérist um smekklegar myndir af stúlku á mótunarárum - fjórtán ára mér - sem aldrei áttu að vera klámvæddar. Hún snérist um daginn þegar kvenlíkaminn krafðist jafnréttis. Daginn þegar hefndarklám var gengisfellt. Daginn þegar fjölmörg brjóst náðu vopnum sínum aftur.
Skoðun

Við eigum ekki efni á vonleysi né uppgjöf
Magnús Magnússon skrifar

Hingað og ekki lengra
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Hagsmunir heildarinnar - Kafli eitt: Tómlæti Íslendinga
Hannes Örn Blandon skrifar

Þegar líða fer að jólum
Ísak Hilmarsson skrifar

Svansvottaðar íbúðir – fjárfesting í lífsgæðum
Bergþóra Góa Kvaran skrifar

Hættulegt tal Sjálfstæðisflokksins og Viðskiptaráðs
Guðni Freyr Öfjörð skrifar

Þetta má ekki gerast aftur! - Álag á útsvar
Sveinn Ægir Birgisson skrifar

Meistaragráða í lífsreynslu
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar

Stjórnvöld, Óskar á heima hér!
Þóra Andrésdóttir skrifar

Dvel þú í draumahöll
Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar

Níðingsverk
Jón Daníelsson skrifar

Umhverfi, heilsa og skólamáltíðir
Stefán Jón Hafstein skrifar

Æji nei innflytjendur
Davíð Aron Routley skrifar

Stríðsglæpir sem munu ekki gleymast!
Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Samstaða, kjarkur og þor
Björn Snæbjörnsson skrifar

Það er betra fyrir okkur öll að Háskóli Íslands efli fjarnám
Darri Rafn Hólmarsson skrifar

Yfirfull fangelsi, brostið kerfi
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Þegar rafmagn hættir að vera sjálfsagður hlutur
Árni B. Möller skrifar

Það er flókið að eiga næstum 500 milljarða króna á Íslandi
Þórður Snær Júlíusson skrifar

Lýðræði og framtíð RÚV: Tími til breytinga?
Erling Valur Ingason skrifar

5.maí Alþjóðadagur ljósmæðra
Unnur Berglind Friðriksdóttir skrifar

Endurnýjun hugarfarsins
Bjarni Karlsson skrifar

Ferðamenn: Vanmetnir skattgreiðendur í íslensku hagkerfi
Þórir Garðarsson skrifar

Góð vísa...
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Við höfum ekki efni á tvískinnungi SFS
Vala Árnadóttir skrifar

Hvað getum við lært af Víetnamstríðinu?
Einar Magnússon skrifar

Góður rekstur Mosfellsbæjar og framtíðin björt
Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir ,Lovísa Jónsdóttir skrifar

Fristund.is fyrir öll - líka eldra fólk
Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Ríkisstjórn sem skeytir engu
Diljá Matthíasardóttir skrifar

Áskorun til ráðherra mennta- og barnamála og ráðherra menningarmála
Anna Klara Georgsdóttir skrifar