Skoðun

Metum kennara að verðleikum

Skúli Helgason skrifar
Framhaldsskólakennarar hafa nú verið í verkfalli í tvær vikur og útlitið er tvísýnt með framhaldið. Háskólakennarar hafa samþykkt verkfallsboðun ef ekki nást samningar á næstunni og samningar grunnskólakennara eru nú á borði ríkissáttasemjara. Það er ljóst að þörf er á viðhorfsbreytingu meðal stjórnvalda og í samfélaginu varðandi mikilvægi kennarastarfsins.

Á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hef ég undanfarið tekið þátt í að móta sameiginlegar áherslur í skólamálum. Þar höfum við m.a. kynnt okkur hvað einkenni skólastarf í þeim löndum sem mestum árangri eða framförum hafa náð á undanförnum árum.

Endurmenntun kennara

Niðurstöðurnar eru skýrar: gæði skólastarfs eru að verulegu leyti háð gæðum kennslunnar og þar skiptir sköpum að kennarastarfið sé metið að verðleikum.

Þar munar mestu að laun kennara séu góð og sambærileg við kjör stétta með sambærilega menntun; að laða hæft fólk í störf kennara; að vel sé staðið að sí- og endurmenntun kennara og skólastjórnendur hafi svigrúm í sínu starfi til að veita kennurum faglega forystu og stuðning. Tillögur okkar taka mið af öllum þessum þáttum.

Það þarf að skapa samstöðu um tiltekin grundvallaratriði á komandi misserum: að bæta kjör kennara og gera starfið eftirsóknarvert í hugum ungs fólks sem hyggur á framhaldsnám; að auka skilning í samfélaginu á mikilvægi kennarastarfsins fyrir framtíð ungs fólks og hagsæld samfélagsins; að efla starfendarannsóknir á kennsluháttum í skólum; að skapa kennurum svigrúm til að einbeita sér að kennslu í hinu daglega starfi en auka stuðning sérhæfðra aðila við hlið kennarans í skólastofunni, s.s. sérkennara, þroskaþjálfa, félagsráðgjafa og skólasálfræðinga svo hægt sé að bæta þjónustu við nemendur, ekki síst þá sem glíma við náms- eða hegðunarörðugleika eða vanlíðan af félagslegum eða andlegum toga.

Vinna saman sem ein heild

En til þess að við náum árangri í skólamálum þá verða stjórnvöld og samtök kennara, skólastjórnenda og foreldra að finna leiðir til að vinna saman sem ein heild í þágu barna og ungmenna. Það verða engar raunverulegar umbætur nema tekið sé mark á sjónarmiðum fagfólksins sem ber hita og þunga af skólastarfinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×