Innlent

Utanríkisráðherra veitir 32 milljónum til mannúðaraðstoðar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Peningarnir fara til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og UNICEF.
Peningarnir fara til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og UNICEF. Vísir/AP/Vilhelm
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur tekið ákvörðun um að veita 32 milljónum króna til mannúðaraðstoðar. Framlögin fara til WFP, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, vegna mataraðstoðar við flóttamenn frá Sýrlandi og til UNICEF til baráttunnar gegn ebólu í Vestur-Afríku.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir Gunnar Bragi að mikil þörf sé á mataraðstoð til sýrlenskra flóttamanna en þeir séu nú yfir þrjár milljónir. Hætta þurfti mataraðstoð til 1,7 milljóna flótamanna á svæðinu þar sem sjóðir WFP voru uppurnir. Átak var gert og mataraðstoð komið aftur á en sjóðir WFP duga bara til að veita mataraðstoð fram í janúarmánuð, að því er segir í tilkynningunni.

„Þá er einnig brýn þörf fyrir aðstoð í Vestur-Afríku þar sem ebóla hefur breiðst út, en börn eru sérstaklega í mikilli hættu á að sýkjast. Fjöldi barna á um sárt að binda vegna faraldursins, sem hefur gert þúsundir barna munaðarlaus,“ segir í tilkynningunni. Með framlaginu til UNICEF er brugðist við neyðarkalli stofnunarinnar til að berjast gegn faraldrinum og afleiðingum hans.

Samkvæmt utanríkisráðuneytinu er þegar búið að veita 37 milljónir króna á árinu til baráttunnar gegn ebólufaraldrinum og 33 milljónir króna vegna ástandsins í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×