Vindmælir í Hamarsfirði brotnaði í fárviðrinu sem nú gengur yfir austanvert landið. Áður en mælirinn brotnaði höfðu hviður þar mælst allt að 67 metrar á sekúndu.
„Meðalvindur í Hamarsfirði um eittleytið í dag var 39 metrar á sekúndu. Svo brotnaði mælirinn sem Vegagerðin er með þarna, hann hefur líklegast ekki þolað þetta álag. Það er nú eiginlega frekar fúlt því svo virðist sem vindurinn sé bara enn að vaxa og það væri gaman að hafa þessar tölur,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Óli Þór segir að staðurinn þar sem vindmælirinn er í Hamarsfirði sé einn af verri stöðum á landinu í norðvestan átt og því ekki af ástæðislausu að hann sé þar sem hann er.
Veðrið er ekkert að fara að breytast á næstunni, að sögn Óla Þórs. Þó að það lægi kannski í örlitla stund eigi fólk því alls ekkert að vera að stökkva af stað.
