Innlent

Mengun mælist margfalt yfir heilsuverndarmörkum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mengunin stafar af eldgosinu í Holuhrauni.
Mengunin stafar af eldgosinu í Holuhrauni. VÍSIR/EGILL AÐALSTEINSSON
Mælir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem staðsettur er við leiksólann Sjónarhól í Grafarvogi sýndi í kvöld að brennisteinsdíoxíðmengun væri í 1.870 míkrógrömmum á rúmmetra. Þetta sýndi mælirinn klukkan sjö í kvöld en almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varaði á svipuðum tíma við gosmengun á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.

Klukkan 20.30 var klukkustundarmeðaltal brennisteinsdíoxíðmengunarinnar 1.017 míkrógrömm á rúmmetra. Annar mælir, sem staðsettur er á Grensásvegi, sýndi klukkan átta í kvöld 1.126 míkrógrömm á rúmmetra sem klukkustundarmeðaltal. Það eru miðlungs loftgæði.

Mengunin er það mikil að flest fólk ætti að geta fundið lykt af henni en samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunnar finna flestir lykt að brennisteinsdíoxíðmengun þegar hún nær 1.000 míkrógrömmum á rúmmetra. Styrkur brennisteinsdíoxíð er í hreinu andrúmslofti um 1 míkrógramm á rúmmetra.

Samkvæmt vef Reykjavíkurborgar eru heilsuverndarmörk brennisteinsdíoxíðs í andrúmsloftinu 350 míkrógrömm á rúmmetra á klukkustund. Styrkurinn sem nú mælist er því margfalt umfram þessi viðmið.

Í tilkynningu frá almannavörnum frá því fyrr í kvöld var þeim sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma bent á að fylgjast með loftgæðamælingum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×