Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að draumur sambandsins væri 15 þúsund manna yfirbyggður völlur án hlaupabrautar með öðrum rekstri. Geir sagði jafnframt að til þess að þetta gæti orðið að veruleika yrðu einkafjárfestar að koma að verkefninu.
Helgi segir í samtali við Vísi að það sé jákvætt að draga fjársterka aðila að þessari framkvæmd en menn verði að hafa í huga að fjárfestar vilji fá peninginn sinn til baka.

Aðspurður segir Helgi að endurbætur KSÍ séu marga milljarða framkvæmd og að það geti tekið mörg ár að koma slíkri framkvæmd í gegn. „Aðalatriðið er þetta. Þeir fjárfestar sem komið gætu að þessu verkefni vilja fá peningana sína til baka. Rekstrargrundvöllur verkefnsins stendur og fellur með tryggum leigugreiðslum frá ríki og borg og síðan hversu sterk fyrirtæki verða staðsett í byggingunni, fyrirtæki með mikla veltu og eru traustir leigutakar,“ segir Helgi.
Ljóst er að ekki verður auðvelt að fá ríki eða borg til að leggja mikla peninga í verkefnið. Þórgnýr Thoroddsen, formaður ÍTR, sagði í samtali við Vísi í morgun að þar á bæ biðu menn eftir fundi með Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra. Illugi hefur sjálfur ekki svarað símtölum í dag.