Þóra B. Helgadóttir, landsliðsmarkvörður kvenna í knattspyrnu, spilar sinn síðasta leik fyrir landsliðið á miðvikudaginn þegar stelpurnar okkar mæta Serbíu í lokaleik undankeppni HM 2015.
Þóra ver markið gegn Ísrael á morgun og svo Serbíu í lokaleiknum í næstu viku, en það verða landsleikir númer 107 og 108 hjá Þóru sem hefur verið einn besti markvörður heims um árabil.
Hún sagði við Vísi á landsliðsæfingu í Laugardalnum í dag að líklega væri knattspyrnuferli hennar lokið, en hún spilar með Fylki í Pepsi-deildinni í dag.
Þóra hefur á glæstum ferli leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð, Noregi og í Ástralíu, en hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Bandaríkjunum 10. júní 1998 eða fyrir sextán árum síðan.
Nánar verður rætt við Þóru í Fréttablaðinu á morgun.
