Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir að atvik sem átti sér stað í leik í 2. flokki karla á Hellissandi í gær fái hefðbundna málsmeðferð innan sambandsins.
Leikmaður Snæfellsness var fluttur með þyrlu á sjúkrahús í gær eftir að hafa hlotið alvarlega höfuðáverka. Leikmaður úr liði gestanna, Sindra frá Hornafirði, er gefið að sök að hafa veitt honum áverkanna eftir að slagsmál brutust út.
Málið er nú í rannsókn lögreglu en aganefnd KSÍ mun einnig fjalla um málið út frá skýrslu dómara leiksins.
„Skýrslan mun fara fyrir aganefnd KSÍ. Við tekur hefðbundið ferli en meira get ég ekki sagt um málið að svo stöddu,“ sagði Þórir í samtali við Vísi í dag.
Meiðsli drengsins voru minni en óttast var í fyrstu en mat lögreglunnar á Akranesi er að um alvarlega líkamsárás hafi verið að ræða. Verði því sjálfkært í málinu.
