Enski boltinn

Andri: Ræddi síðast við Redknapp fyrir fimm vikum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Andri Sigþórsson, bróðir Kolbeins Sigþórssonar, segir það alrangt sem komið hefur fram um viðræður QPR við leikmanninn.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Ajax hafi samþykkt tilboð QPR í Kolbein en að viðræður við leikmanninn sjálfan hafi dregist á langinn.

„Við komumst að samkomulagi við Ajax um kaupverð og þetta snýst nú um að semja við drenginn. Það hefur reynst erfitt. Við hittum umboðsmanninn hans - bróður hans - og náðum ekki saman. Þetta gæti þó enn gerst,“ var haft eftir Harry Redknapp, stjóra QPR.

„Það eru engar viðræður í gangi. Ég hitti Redknapp síðast fyrir fimm vikum síðan,“ sagði Andri í samtali við Vísi í dag. „Þetta er því eins vitlaust og getur verið.“

Andri vill þó lítið segja um hvernig leitin að nýju liði gangi en staðfestir þó að áhugi sé fyrir hendi í Englandi og Þýskalandi.

„Það er langlíklegast að hann endi á öðrum hvorum staðnum ef hann fer frá Ajax. Það er talsverður áhugi á honum. En ef ekkert verður af því klárar hann síðasta árið sitt hjá Ajax og fer eitthvert annað næsta sumar.“

„Við erum því ekkert stressaðir enda er hann hjá góðu félagi í dag,“ segir Andri enn fremur og telur enga hættu á því að hann verði „frystur“ hjá Ajax til að þvinga fram sölu.

En hefur QPR enn áhuga á Kolbeini? „Þeir verða þá að tala við mig,“ sagði Andri.


Tengdar fréttir

Kolbeinn á leið frá Ajax

Landsliðsframherjinn að yfirgefa Hollandsmeistarana eftir þrjú ár í Amsterdam.

Markmiðið er að taka næsta skref

Kolbeinn Sigþórsson er líklega á förum frá Ajax í sumar eftir þriggja ára dvöl í Amsterdam. Hann er opinn fyrir helstu deildum Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×