Enski boltinn

Mourin­ho vill taka við New­cast­le United

Aron Guðmundsson skrifar
Munum við sjá José Mourinho aftur í ensku úrvalsdeildinni? 
Munum við sjá José Mourinho aftur í ensku úrvalsdeildinni?  EPA-EFE/ANGELO CARCONI

José Mourinho vill taka við Newcastle United þegar að Eddie Howe yfirgefur félagið á einhverjum tímapunkti. Þessu heldur The Guardian fram í dag. Mourinho fylgist náið með þróun mála hjá liðinu.

Þessar fregnir koma á sama tíma og Eddie Howe fagnar þriggja ára starfsafmæli sem knattspyrnustjóri Newcastle United. Liðið situr í 11.sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir og fátt sem bendir til þess á þessum tímapunkti að það dragi til tíðinda í samstarfi félagsins við Englendinginn. 

Þá er ekki langt síðan að Mourinho, sem hefur yfir mikilli reynslu að skipa úr enska boltanum, tók við tyrkneska liðinu Fenerbache. Portúgalinn vill hins vegar ólmur snúa aftur til Englands þar sem að hann telur sig eiga óklárað verk.

Mourinho telur það besta möguleika sinn á því að snúa aftur í enska boltann að taka við liði eins og Newcastle United en áður hefur hann þjálfað Chelsea, Manchester United og Tottenham í sömu deild. 

Guardian segir Mourinho hafa sett sig í samband við ákveðna aðila tengda Newcastle United og beðið þá um að láta sig vita ef knattspyrnustjóramálin fara á hreyfingu hjá félaginu.

Mourinho er eini knattspyrnustjórinn sem hefur unnið allar þrjár Evrópukeppnirnar, Meistaradeildina, Evrópudeildina og Sambandsdeildina. Alls hefur Mourinho unnið 21 titla á 24 árum sínum sem knattspyrnustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×