Hinn 23 ára gamli Jones hefur verið að gera sig sífellt meira gildandi hjá Liverpool sem situr á toppi bæði ensku úrvalsdeildarinnar og Meistaradeildar Evrópu. Jones átti til að mynda stórkostlega sendingu á Luis Diaz í fyrsta markinu í 4-0 sigrinum gegn Leverkusen í vikunni og hefur verið að fá sæti í byrjunarliðinu á kostnað Dominik Szoboszlai.
Frammistaða Jones að undanförnu hefur til að mynda skilað honum sæti í enska landsliðshópnum, fyrir komandi leiki við Grikki og lærisveina Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu, 14. og 17. nóvember. Það gætu því orðið hans fyrstu A-landsleikir.
Slot vill ekki eigna sér heiðurinn að því hve vel Jones hefur gengið, og grínaðist með það að nýja föðurhlutverkið virtist hjálpa honum.
„Varðandi Curtis þá er það kannski ekki mér að þakka. Hann varð pabbi og ég átti engan þátt í því!“ sagði Slot á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool við Aston Villa annað kvöld, og skellihló.
Fatherhood has taken Curtis Jones to another level 👶#liverpool | #premierleague pic.twitter.com/DD7DDSMUN7
— Mirror Football (@MirrorFootball) November 8, 2024
Jones varð pabbi í síðasta mánuði þegar dóttirin Giselle fæddist.
„Frá því að hann varð pabbi þá hefur hann átt frábærar frammistöður. Þannig var það líka fyrstu vikurnar sem við unnum saman en svo datt frammistaðan aðeins niður hjá honum. Undanfarið hefur hann verið framúrskarandi á nýjan leik,“ sagði Slot.
Hann segir Jones smám saman gæta sín betur á því að hanga ekki of lengi með boltann.
„Hann er með mikla hæfileika með boltann. Hann er aldrei hræddur við að gera eitthvað einstakt með boltann. Stundum leiddi það af sér aðstæður þar sem hann snerti boltann aðeins of mikið því hann var of öruggur með sig. En hann er jafn vinnusamur og hann er sjálfsöruggur.
Það er líka hægt að treysta á hann í varnarleiknum. Hann hefur þetta allt. Núna þarf hann að sýna stöðugleika. Bestu leikmenn heims þurfa að standa sig á þriggja daga fresti. Það er það sem hann þarf að sýna núna,“ sagði Slot.