Enski boltinn

Rice tábrotinn en ætlar að spila á sunnu­dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Declan Rice ætlar að harka af sér og spila á sunnudag.
Declan Rice ætlar að harka af sér og spila á sunnudag. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Declan Rice, miðjumaður Arsenal, er staðráðinn í að fjölga ekki leikmönnum á meiðslalista félagsins. Hann ætlar að harka af sér tábrot og spila gegn Chelsea á sunnudag.

Rice meiddist í tapi Arsenal gegn Newcastle um síðastliðna helgi og gat ekki tekið þátt í tapinu gegn Inter í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Declan Rice fór með brotna tá af velli um síðastliðna helgi.Daniel Chesterton/Offside/Offside via Getty Images

Þrátt fyrir það var Rice valinn í landsliðshóp Englands, sem Lee Carsley tilkynnti í dag.

Vanalega tekur um fjórar til sex vikur að jafna sig á táarbroti en Rice ætlar aðeins að gefa sér viku.

Hann vildi taka þátt í leiknum gegn Inter í gær en gat ekki reimað á sig skóna á æfingum fyrir leik vegna bólgu í fætinum.

Ljóst er að liðið þarf á hjálp að halda, aðeins eitt stig hefur komið úr síðustu þremur deildarleikjum. Arsenal situr eins og er í fimmta sæti með nítján stig.

Það glæddi Lundúnarliðið þó von að fyrirliðinn Martin Ödegaard sneri aftur á völlinn í gær en hann hafði verið frá í tæpa tvo mánuði vegna meiðsla.

Arsenal spilar við Chelsea næsta sunnudag áður en landsleikjahlé brestur á. Þar mun England mæta Grikklandi og Írlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×