Erlent

Tveir Bandaríkjamenn greinast með Ebóla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Fjölmargir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem vinna að meðhöndlun ebólufaraldursins í Vestur-Afríku hafa greinst með veiruna. Tveir bandarískir læknar hafa greinst með veiruna nýlega en báðir eru taldir miklir frumkvöðlar í baráttu sinni gegn þessum skæða sjúkdómi.

Mikill skortur er á læknum, lyfjum og allri heilbrigðisþjónustu og óttast er að veiran nái að breiðast enn frekar út verði ekki gripið til róttækra aðgerða. Frá því í byrjun árs hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) sent frá sér hundrað og fimmtíu sérfræðinga, en þrátt fyrir það hefur ebólutilfellum fjölgað svo um munar.

Erfitt hefur reynst að stemma stigu við faraldrinum og aldrei hefur jafn erfiðlega gengið að eiga við sjúkdóminn en nú. Ebólan gerði fyrst vart við sig í Gíneu í ársbyrjun og hefur síðan þá náð að breiðast út til nærliggjandi landa - Líberíu og Síerra Leone.

Yfir þúsund eru sýktir og hátt í sjöunda hundrað eru látnir af þessum versta ebólafaraldri sögunnar. Níutíu prósent þeirra sem greinast með veiruna deyja.

Engin lækning er til við ebóluveirunni, en hún dregur nafn sitt af fljóti í Austur-Kongó þar sem veiran kom fyrst upp árið 1976. Þá dró hún 280 manns til dauða en hátt í annað þúsund manns hafa  fallið af hennar völdum  frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar. Í kjölfar smits herjar veiran á nær öll líffæri manneskjunnar og étur upp vefi líkamans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×