Körfubolti

Fer Embiid sömu leið og Yao Ming?

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Embiid um það bil að troða yfir andstæðing í háskólakörfuboltanum
Embiid um það bil að troða yfir andstæðing í háskólakörfuboltanum vísir/afp
Fyrir fáum dögum síðan var talið líklegt að Cleveland Cavaliers myndi velja Joel Embiid fyrstan í nýliðavali NBA körfuboltans í Bandaríkjunum í næstu viku. Það hefur breyst.

Embiid þykir eitt allra mesta efnið í öflugum hópi leikmanna sem gefa kost á sér í nýliðavali NBA í ár. Hann er 213 sentimetrar á hæð og þykir mjög hæfileikaríkur en efasemdir eru um það hvort hann geti haldist á vellinum.

Rúmri um viku fyrir nýliðavalið varð Embiid fyrir því áfalli að brjóta bein í hægri fæti, sama bein og þvingaði Yao Ming og Bill Walton til að hætta körfuknattleik langt fyrir aldur fram.

Í fyrstu var talið að Embiid myndi missa af öllu nýliðatímabili sínu en Arn Tellem umboðsmaður Embiid segir uppskurðinn í gær hafa gengið vel og að hann ætti að vera klár í slaginn í NBA eftir fjóra til sex mánuði en með hvaða liði?

Nýliðavalið í ár er álitið mjög ríkt af hæfileikaríkum leikmönnum sem hafa alla burði til að ná langt. Embiid þótti tróna á toppnum þar ásamt Jabari Parker og Andrew Wiggins. Vegna meiðslanna er talið að Embiid gæti endað hjá föllnu stórveldunum Boston Celtics sem á sjötta valrétt eða Los Angeles Lakers sem á sjöunda valrétt. Þori þau á annað borð að taka áhættuna.

Hvar leikmaðurinn hávaxni endar uppi mun koma í ljós á fimmtudaginn en ljóst er að meiðsli hans setja spennandi nýliðaval í enn frekari óvissu. Svo á eftir að koma í ljós hvort þessi efnilegi leikmaður nái að setja mark sitt á þessa skemmtilegu og sterku körfuboltadeild.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×