Engin leið virðist vera framhjá varnarlínu Leiknis þessa dagana en Leiknir vann fjórða leikinn í röð í kvöld og hafa Breiðhyltingar haldið hreinu í þeim öllum.
Leiknir tók á móti Haukum í Breiðholti og var staðan markalaus í hálfleik. Í seinni hálfleik skoruðu Leiknismenn tvö mörk á skömmum tíma sem gerðu útslagið. Hilmar Árni Halldórsson skoraði fyrra mark Leiknis áður en Kristján Páll Jónsson bætti við seinna markinu örfáum mínútum síðar.
Tveggja marka sigur Leiknis staðreynd sem skaust á topp 1.deildarinnar með sigrinum með fjóra sigra í fjórum leikjum. Haukar aftur á móti sitja í fallsæti eftir leikinn með aðeins tvö stig eftir fjóra leiki.
Þá nældu Víkingar frá Ólafsvík sér í þrjú stig gegn Grindavík á útivelli í kvöld. Eyþór Helgi Birgisson skoraði eina mark leiksins stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks. Víkingur situr í þriðja sæti deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki en Grindavík situr í því níunda en eiga leik til góða.
Úrslit:
Leiknir Reykjavík 2-0 Haukar
Grindavík 0-1 Víkingur Ólafsvík
Upplýsingar um markaskorara fengin af Úrslit.net
