Körfubolti

Steve Kerr sagði nei við Phil Jackson - verður þjálfari Golden State

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr.
Steve Kerr. Vísir/Getty
Steve Kerr, fyrrum margfaldur meistari í NBA-deildinni og núverandi körfuboltaspekingur á TNT, verður næsti þjálfari Golden State Warroirs.

Kerr var einnig með tilboð um að taka við liði New York Knicks en sagði nei við gamla þjálfara sinn Phil Jackson og skrifaði þess í stað undir fimm ára samning við Golden State.

Steve Kerr fær 25 milljónir dollara fyrir samninginn sem eru um 2,8 milljarðar íslenskra króna.

Börnin hans Kerr eru öll í háskóla eða menntaskóla í Kaliforníu og þar liggur hluti ástæðunnar að hann vildi ekki taka við starfi á Austurströndinni.

Kerr er 48 ára gamall og tekur við starfi Mark Jackson. Golden State vann 51 leik á tímabilinu en datt út fyrir Los Angeles Clippers eftir oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Warroirs-liðið er ungt og spennandi lið og það verður fróðlegt að sjá hvað Kerr getur gert.

Kerr vann fimm titla sem leikmaður, þrjá með Chicago Bulls og tvo með San Antontio Spurs. Hann spilaði þar fyrir tvo af besti þjálfurum allra tíma, Phil Jackson hjá Chicago Bulls og Gregg Popovich hjá San Antonio.

 

Steve Kerr var framkvæmdastjóri Phoenix Suns í þrjú tímabil en hætti í júní 2010. Hann hefur síðan unnið mikið í sjónvarpi en aldrei falið það markmið sitt að komast að sem þjálfari í NBA-deildinni.

Steve Kerr og Phil Jackson.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×