Erlent

Réttarhöldum yfir Pistorius frestað

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Réttarhöldum yfir spretthlauparanum hefur verið frestað til 7. apríl.
Réttarhöldum yfir spretthlauparanum hefur verið frestað til 7. apríl. Vísir/AFP
Réttarhöldum yfir spretthlauparanum Oscar Pistorius hefur verið frestað til 7. apríl. Ástæðan er sú að einn tveggja meðdómara var lagður inn á spítala. CNN greinir frá.

Meðdómararnir tveir eiga að aðstoða dómarann við að kveða upp dóm. Í Suður-Afríku er enginn kviðdómur við réttarhöld.

Réttarhöld hafa staðið yfir í næstum heilan mánuðuð. Pistorius, sem sakaður er um að hafa myrt kærustu sína Reeva Steenkamp af ásettu ráði, átti að bera vitni á föstudag.

Enginn vafi liggur á því hvort Pistorius hafi drepið Steenkamp, en það gerði hann 14. febrúar 2013. Réttarhöldin snúast um hvort hann hafi gert það af ásettu ráði eður ei.

Pistorius ber því við að hann hafi talið að um innbrotsþjóf væri að ræða þegar hann skaut fjórum skotum í gegnum baðherbergishurð í svefnherbergi sínu þar sem Steenkamp var fyrir innan. Þrjú skot hæfðu hana í læri, handlegg og höfuð. Dó hún samstundis.

Í spilaranum fyrir neðan má sjá stutt yfirlit CNN á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×