Sjónvarpskonan Chelsea Handler mætti í sjónvarpsþáttinn Good Morning America í dag til að kynna nýju bókina sína, Uganda Be Kidding Me.
Chelsea eyddi þó mestum tíma í að verja tíst sem hún skrifaði er hún horfði á Óskarinn á sunnudaginn. Í einu tístanna sagði Chelsea meðal annars að leikkonan Angelina Jolie vildi ættleiða Óskarsverðlaunahafann Lupitu Nyong'o.
„Fólk er alltaf brjálað út í mig. Ég myndi ekki vera mikið á netinu ef ég hefði áhyggjur af því. Ég er ekki kynþáttahatari. Ég deita fullt af þeldökkum mönnum þannig að það yrði erfitt að útskýra það fyrir þeim.“