Skoðun

Ný hugsun í skipulagsmálum

Halldór Halldórsson skrifar
Í þættinum Vikulokin á Rás 1 sl. sunnudag var komið inn á skipulagsmál sem eru að mínu mati gríðarlega stór og mikilvægur málaflokkur í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þar gerði ég grein fyrir þeirri skoðun minni að hugsa yrði hlutina upp á nýtt varðandi þéttingu byggðar en ég var þeirrar skoðunar áður en samkomulag um að fresta málum varðandi Reykjavíkurflugvöll til 2022 var undirritað í síðustu viku.

Það er nauðsynlegt vegna umferðarmála að sem best takist til við þéttingu byggðar. Miðað við þá íbúafjölgun sem fyrirsjáanleg er á næstu árum er ljóst að gatnakerfið tekur ekki við umferðaraukningu í samræmi við þá fjölgun ef allir eiga að vera á bílum. Þess vegna ganga hugmyndir um að 80% uppbyggingar verði vestan línu um Elliðaár ekki upp í mínum huga.

Hugmyndir í drögum að nýju aðalskipulagi um eflingu hverfanna með flesta ef ekki alla þjónustu innan þeirra og aukna möguleika á að íbúar í hverju hverfi geti sótt sína atvinnu í sínu hverfi tel ég vera jákvæðar. Ef vel tekst til getur það dregið nokkuð úr þörf fyrir enn frekari umferðarmannvirki sem lítið pláss er fyrir í borginni. Það gefur okkur möguleika til að úthluta enn fleiri lóðum í úthverfum fyrir fólk sem vill búa í einbýli frekar en fjölbýli. Það er mikilvægt að geta valið.

Í tengslum við endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins eru léttlestir til skoðunar og er það mjög áhugaverð nálgun. Erlendis eru sambærilegar borgir eða svæði hvað mannfjölda varðar að leysa sín samgöngumál með slíkum lestum. Í borgarsamfélagi þurfa almenningssamgöngur að vera skilvirkar, tíðar og áreiðanlegar. Þannig verður til raunverulegt val á móti bílnum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×