Seltirningurinn metnaðarfulli setti sér snemma markmið að vinna fyrir sér við þá iðju sem honum þótti skemmtilegust, að leika knattspyrnu. Hægt hefði verið að gefast upp á þeim áformum margsinnis á leiðinni en Bjarki hélt sig við markmið sín alveg sama á hverju gekk.

„Hann var bæði stærri og sterkari en ég og hafði þá eiginleika fram yfir mig. Ég var seinþroska, tók ekki út kynþroska fyrr en í 10. bekk á meðan hann gerði það í 7. bekk,“ segir Bjarki Már sem aldrei lét deigan síga. Hann segist hafa verið meðvitaður um að þroskinn myndi koma og það eina sem hann gæti gert væri að bæta færni sína í fótbolta. Annað kæmi síðar.

„Ég var svo oft uppi á grasi að ég fékk stundum að æfa með 2. flokki þegar vantaði mann í spil eða annað. Siggi gerði rosalega mikið fyrir mig. Við náðum mjög vel saman þótt það hafi ekki verið tilfellið með alla,“ segir Bjarki Már. Miðvörðurinn tók út þroska sinn og getan var svo sannarlega til staðar. Honum var boðið utan til æfinga hjá enska félaginu Reading sumarið 2011 þegar hann var 17 ára.
„Ég var þar í tíu daga og þeir voru rosalega ánægðir með mig,“ segir Bjarki Már. Það hafi verið mikil hvatning fyrir sig að vera boðið út enda hafi það verið eitt af markmiðunum. Þá var hann valinn í æfingahóp 19 ára landsliðsins í kjölfarið.

„Ég hef alltaf verið í reglulegu eftirliti hjá hjartalækni,“ segir Bjarki sem fæddist með tvíblaðka hjartalokur í stað þríblaðka. Það hafi hins vegar aldrei háð honum og svör læknisins þar til í haust verið á þá leið að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann reiknaði ekki með því að nein breyting hefði orðið á því þegar læknirinn boðaði sig í skoðun ásamt foreldrum sínum.
„Það var gríðarlegt sjokk. Ég stóð upp og gekk beint út,“ segir Bjarki Már um viðbrögð sín þegar hann fékk að heyra tíðindin. Álagið á hjartað og leki í hjartalokunum hefði aukist mikið. Ástandshorfurnar væru ekki góðar. Hann yrði að hætta knattspyrnuiðkun. Bjarki hafði tekið fótboltadótið með sér til læknisins enda átti hann að mæta á æfingu.

„Það er ekki oft sem það gerist en ég brotnaði niður í faðminum á honum. Þá skildi ég að markmiðin mín væru á leiðinni út um gluggann,“ segir Bjarki Már sem þó var með á æfingunni. Sinni síðustu.
„Ég var búinn að leggja svo hart að mér í mörg ár og náð að afreka mikið. Ég var orðinn bjartsýnn á að ná markmiðunum,“ segir Bjarki Már sem spilaði í fyrsta skipti með meistaraflokki Gróttu í sumar. Auk atvinnumannsdraumsins átti hann sér þann draum að spila fyrir hönd karlalandsliðs Íslands á Laugardalsvelli.
Raunar er með ólíkindum í hversu gott form Bjarki Már var kominn síðastliðið sumar. Hann skoraði hæstu einkunn í þrekprófum (e. Cooper Test) sem samkvæmt hjartalækninum var ótrúlegt í ljósi þess hve mikill lekinn í hjartalokunum var.

„Það þekkist ekki að vera í svona formi með þennan hjartasjúkdóm. Formið gaf mér þann tíma sem ég þó gat verið með í þessu.“
Þegar draumar mölbrotna er auðvelt að gera hið sama. Brotna niður og bölva óréttlæti heimsins. Bjarki Már var fljótur að finna sér ný markmið. Strax eftir fyrrnefnda æfingu hafi Ólafur og Jens Sævarsson, þjálfari 2. flokks, rætt við sig.
„Óli vildi fá mig beint inn í þjálfarateymið í meistaraflokki og Jenni inn í 2. flokkinn,“ segir Bjarki Már. Nú tveimur mánuðum síðar eru markmiðin skýr. Þau eru í raun þau sömu og hann hafði sem leikmaður nema nú sem þjálfari.

„Flestir byrja að plana þjálfaraferilinn upp úr þrítugu. Ég er nítján ára og er því kominn með forskot,“ segir Seltirningurinn. Hann lýkur stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands í vor og hyggur á nám í íþróttafræði á Englandi næsta haust.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins og nú þjálfari karlaliðs ÍBV, er Bjarka Má innan handar. Bjarki ritaði Sigurði bréf þar sem hann sagði honum sína sögu. Sigurður birti bréfið á heimasíðu sinni öðrum til hvatningar. Erfitt er að verða ekki snertur af hugarfari táningsins metnaðarfulla.
„Maður verður að líta sem björtustum augum fram í tímann og vinna úr málunum eins og þeir birtast manni.“