San Diego Chargers hélt lífi í úrslitakeppnisvonum sínum er liðið gerði sér lítið fyrir og skellti Peyton Manning og félögum í Denver Broncos, 20-27, í Denver. Chargers er búið að vinna 7 leiki og tapa 7 en Denver er 11-3 eftir leikinn.
Þetta var sætur sigur fyrir þjálfara Chargers, Mike McCoy, því hann var sóknarþjálfari hjá Broncos frá árunum 2009-12.
Leikstjórnandinn Philip Rivers átti engan sérstakan stjörnuleik fyrir San Diego en fékk góða hjálp frá félögum sínum. Það stigu allir upp í þessum leik.
Sérstaklega hlauparinn Rayn Mathews og útherjinn Keenan Allen.
Peyton Manning átti þokkalegan leik í samanburði við aðra leikstjórnendur en hann er vanur að sýna meira. Hann kastaði boltanum frá sér á ögurstundu í lokaleikhlutanum og San Diego hélt boltanum allt til enda leiksins.
