Rúna Sif Stefánsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna í kvöld og Danka Podovac eitt.
Stjarnan, Breiðablik, Fylkir og Þór/KA eru því komin áfram í undanúrslit bikarsins.
Leikurinn fór rólega af stað og gerðist lítið í leiknum þar til á 15. mínútu. Harpa Þorsteinsdóttir, sóknarmaður Stjörnunnar, átti þá langa og góða sendingu inn fyrir vörn Vals. Þar var Rúna Sif Stefánsdóttir mætt á harðaspretti og tók nokkrar snertingar á knöttinn áður en hún skaut framhjá markmanni Vals og skoraði.
Eftir markið voru Garðbæingarnir mun sterkari aðilinn í leiknum. Valsstúlkur áttu ekki sinn besta leik í fyrri hálfleik og fór svo að gestirnir bættu við marki á 36. mínútu. Þar var að verki Danka Podovac. Danka fékk boltann inn í teig og skoraði auðveldlega með fínu skoti. Staðan var 0-2 fyrir Stjörnustúlkum í hálfleik.
Seinni háfleikur var vægast sagt bragðdaufur og lítið um færi. Valsstúlkur sóttu þó örlítið í sig veðrið undir lok hálfleiksins og voru ansi líklegar á köflum. Það var þó Stjarnan sem skoraði þriðja og síðasta mark leiksins. Rúna Sif skoraði sitt annað mark í leiknum á 86. mínútu eftir sendingu frá Hörpu líkt og í fyrsta markinu. Skotið var langt fyrir utan teig og söng í netinu, einkar glæsilegt hjá henni.
Þetta mark var rothöggið sem Stjarnan var að leita að. Stjarnan vann, 3-0, og liðið því komið áfram í undanúrslit Borgunarbikarsins. Stjarnan er ríkjandi bikarmeistari og verður að teljast ansi líkleg þetta árið einnig.

„Ég er fyrst og fremst ánægður. Það er komin þreyta í flest lið í deildinni vegna álags og þetta gat endað hvoru megin sem var. Þær náðu ekkert að opna okkur í þessum leik. Þetta var nokkuð öruggt,“ sagði Þorlákur Már Árnason, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.
„Þetta var þægileg forysta og við duttum aðeins of aftarlega hérna í seinni hálfleik. Það var ekki planið en það gerist.“
En er það einhver óska mótherji í næstu umferð?
„Ég veit ekki hverjir fóru áfram en það væri fínt að fá heimaleik núna,“ sagði Þorlákur léttur í lokin.

„Ég er mjög ósátt við þetta. Við vorum einhvernveginn ekki klárar, hræddar og ekki líkar sjálfum okkur,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þjálfari Vals hundfúl eftir leikinn.
„Síðan í þessu þriðja marki hjá þeim vorum við farnar að taka sénsa. Við fengum ódýr mörk á okkur í fyrri hálfleik og svo vantaði mikið upp á sóknarleikinn hjá okkur.“
„Það voru ekki mörg opin færi í þessum leik og þessi mörk sem við fengum á okkur eru allt mörk sem við eigum að verjast,“ sagði Helena að lokum.