Rússneski hnefaleikakappinn Denis Lebedev beið lægri hlut gegn Panamamanninum Guillermo Jones í bardaga um heimsmeistaratitilinn í veltivigt í Moskvu á föstudagskvöldið.
Bardaginn var stöðvaður undir lok 11. lotu en velta má fyrir sér hvort ekki hafi verið tilefni til að stöðva hann fyrr. Rússinn fékk nefnilega slæman skurð nærri hægra auga sínu strax í fyrstu lotu og versnaði útlitið á auga hans með hverri mínútunni.
Jones vann heimsmeistaratitilinn í fyrsta skipti árið 2008. Beltið var hins vegar tekið af honum þar sem hann neitaði fimm sinnum að verja belti sitt. Á fjórum árum samþykkti hann aðeins tvisvar sinnum að mæta í hringinn.
Lebedev fékk því beltið til varðveislu en Jones náði því aftur á föstudagskvöldið.
