Ísland vann sinn fyrsta sigur á 2. deild HM í íshokkí í dag þegar að liðið mætti Ástralíu. Lokatölur voru 3-2, Íslandi í vil.
Ísland komst í 2-1 forystu í fyrsta leikhluta en Ástralía náði að jafna í þriðja leikhluta. Eftir markalausa framlengingu var gripið til vítakeppni.
Markvörður Íslands, Dennis Hedström, var hetja íslenska liðsins en hann varði öll fjögur víti Ástralíu. Emil Alengård skoraði marki Íslands í vítakepninni. Robin Hedström og Pétur Maack skoruðu mörkin í venjulegum leiktíma.
Ísland tapaði fyrir Belgíu, 4-1, í fyrsta leik sínum á sunnudaginn en liðið leikur í A-riðli og er í fjórða sæti af fimm liðum. Króatía og Belgía hafa unnið báða leiki sína til þessa í riðlinum.
Mótið fer fram í Króatíu og er næsti leikur Íslands gegn heimamönnum á miðvikudaginn.
