Pláss er fyrir níu einstaklinga á réttargeðdeildinni og er möguleiki til kynjaskiptingar líka fyrir hendi, en deildin flutti frá Sogni í mars síðastliðnum, þar sem slík skipting var ekki möguleg. Hún er þó óþörf eins og er, því engin kona er vistuð á deildinni.
Meðallegutími fjögur árRéttargeðdeildin hefur tvískipt hlutverk; annars vegar sem öryggisgæsla þar sem afplánun í fangelsi hefur verið talin árangurslaus og hins vegar meðferð vegna andlegra sjúkdóma. ?Þetta er mjög mikið inngrip í hag og líf fólks,? segir Guðmundur Sævar Sævarsson, deildarstjóri réttargeðdeildarinnar.
Meðallegutími á deildinni er fjögur ár. Árið 2010 voru sjúklingarnir sjö, en síðan þá hafa nokkrir verið dæmdir í svokallaða rýmkun, það er eins konar skilorð þar sem menn færast í viðeigandi húsnæðisúrræði með áframhaldandi meðferð, og tveir nýir einstaklingar komið inn.
"Legutími fer algjörlega eftir árangri endurhæfingar," segir Guðmundur. "Sjúklingur þarf ekki bara lyfjameðferð og getu til að komast út úr þeim veikindum sem urðu til þess að hann framdi verknaðinn, heldur þarf hann líka endurhæfingu til að fá innsæi og verða ábyrgur gjörða sinna." Hann bendir á að í lögum segi að dvöl ósakhæfs einstaklings megi ekki vera lengri en nauðsyn beri til.
Flestir falla í neyslu

"Algengasta ástæða endurkomu er neysla og því er gífurlega mikilvægt að við fylgjumst vel með því," segir hann. Þó er mjög misjafnt hvort sjúklingar deildarinnar hafi verið í mikilli neyslu í aðdraganda verknaða sem þeir frömdu og á það til að mynda ekki við um núverandi sjúklingahóp.
Koma í veg fyrir sjálfsvígAlmenn líðan sjúklinga hefur batnað eftir flutningana, að sögn Guðmundar. Þó er hún mjög misjöfn og fer eftir því hversu veikir einstaklingarnir eru.
"Þegar fólk kemur hingað er það að koma út úr sínum verstu veikindum og fer fyrst þá að glíma við sorgina og sektarkenndina sem fylgir verknaðinum sem var framinn. Því er mikilvægt að umhverfið sé sniðið að meðferð og öryggi. Við erum fyrst og fremst að koma í veg fyrir að þessir menn svipti sig lífi," segir Guðmundur. "Þeir eru misjafnlega veikir og mislangt komnir í sinni meðferð, en þeir eru virkari en áður og við gerum fleiri hluti með þeim. Það að vera veikur og lokaður inni og geta ekkert gert býður bara hættunni heim."
Eftir flutningana er mun auðveldara að hanna aðbúnað þannig að erfitt er að skaða sig á innanstokksmunum og er öryggi sjúklinga og starfsmanna betra. Engir fatahankar eru á veggjum og sturturnar eru einnig þannig hannaðar að starfsmenn þurfa ekki að standa yfir sjúklingum á meðan þeir baða sig því nær ógerlegt er að skaða sig þar inni.
Átta sig á glæpnum

Pyntinganefnd gaf fullt húsNefnd frá Evrópudómstólnum, oft kölluð pyntinganefndin (European Commission of Human Rights and Prevention of Torture), gerði úttekt á réttargeðdeildinni í síðasta mánuði. Hún hefur ekki skilað af sér formlegri niðurstöðu, en að sögn Guðmundar hefur komið fram munnleg umsögn þar sem deildin fékk "toppeinkunn".
"Enda er deildin glæný og allur aðbúnaður ber þess merki. Meðferðin er með besta móti, skráning öll skotheld og niðurstaðan sýnist mér ætla að vera mjög góð," segir hann. Nefndin fer um alla Evrópu til að fara yfir lagasetningar og aðbúnað einstaklinga sem eru sviptir sjálfræði og er haldið nauðugum. Að sögn Guðmundar setti nefndin fyrst og fremst út á lagasetninguna hér á landi, en skiptar skoðanir eru um hvort sérstökum geðheilbrigðislögum eigi að koma á.
"Að mínu mati eiga ekki að vera sérstök lög sem ná yfir alla geðsjúka," segir hann. "Ég er ekki sammála því. Við erum öll eitt, sama hvaða sjúkdóma við erum að glíma við. En erlendis eru þjóðirnar stærri þannig að það þarf kannski meiri inngrip til að tryggja réttindi geðsjúkra."
Of veikir fangar á Litla-Hrauni
Fangelsismálastofnun hefur kallað eftir úrræðum fyrir þá fanga sem falla á milli í kerfinu, eru metnir sakhæfir fyrir rétti en eru veikir og fá því ekki viðeigandi meðferð í almennum fangelsum.
Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, segir réttargeðdeildina ekki geta sinnt þessum hópi eins og er, heldur þurfi að byggja upp nýtt úrræði.
„Það er ákveðinn hópur fanga sem getur verið stórhættulegur þegar þeir eru veikir en voru metnir sakhæfir þegar þeir frömdu glæpinn. Þeir flakka á milli, eru annaðhvort í fangelsi eða hjá okkur, svo í raun þarf sérdeild fyrir þá," segir hann. „Þeir eiga ekki heima á réttargeðdeild því þangað fer fólk sem er strax metið ósakhæft og þeir eiga heldur ekki heima á Litla-Hrauni, því þeir eru of andlega veikir."
Páll Winkel fangelsismálastjóri tekur undir þetta. Í dag séu fjórir til fimm fangar inni á Litla-Hrauni sem falla undir þessa skilgreiningu.
„Það bráðvantar úrræði," segir Páll. „Annaðhvort þarf sérálmu í fangelsi eða sérstaka deild á vegum heilbrigðisyfirvalda."
Að sögn Páls eiga mennirnir það allir sameiginlegt að þeir una sér illa í stærri hópum. Deild með fimm til tíu plássum sé brýnt að koma á laggirnar; öryggisgæslu með sérhæfðari meðferð. Lyfjagjafir séu sérlega flóknar eins og staðan er í dag því það er ekki hægt að neyða lyf ofan í einstaklinga án þess að svipta þá sjálfræði. „Þetta er eitthvað sem þarf að berjast fyrir."
Flóttatilraunir afar fátíðar
- Sjúklingar halda fund á hverjum morgni með starfsfólki deildarinnar þar sem farið er yfir komandi dag. Þegar farið er með sjúklinga í vettvangsferðir eru að lágmarki tveir starfsmenn á hvern og þarf viðkomandi að hafa verið metinn svo að hann sé ekki hættulegur umhverfinu.
- Frjálst aðgengi er í garðinn á deildinni á milli klukkan 9 og 22.
- Ró á að vera komin á hjá sjúklingum á miðnætti.
- Sjúklingar fá leyfi til að sækja jarðarfarir og aðra mikilvæga viðburði í fylgd starfsmanna
- Flóttatilraunir eru afar fátíðar.
Vitnað í sjúkling
"Hér er ég í Reykjavík, sem þýðir að ég er nær fjölskyldu minni og háskólabókasafninu. Hér er líka einfaldara fyrir mig að mæta í uppáhaldskirkjuna mína." - Sjúklingur á réttargeðdeildinni sem fer í messu á hverjum sunnudegi