Skoðun

Þriðja heimsstyrjöldin

Það hefur vart farið fram hjá neinum að úfar eru með þjóðum um allan heim, ýmist vegna viðskiptahagsmuna, landamerkja eða hugmyndafræði. Engum dylst heift og misklíð milli trúarhópa. Áhugi þjóða á norðurheimskautasvæðinu er umtalsverður bæði vegna siglinga og auðæfa sem leynast kunna á hafsbotni. Kínverjar reyna að hasla sér völl á Grænlandi og þar hefur þeim orðið nokkuð ágengt. Áhugi Kínverja á Íslandi er öllum augljós.

Kínverjar eru skipulögð þjóð og öguð og þeir hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að auðvelt er að komast til áhrifa í krafti auðs, eins og dæmin sanna í mörgum Afríkuríkjum þar sem þeir hafa keypt stór landsvæði og leigja önnur. Einnig hafa þeir gert þjóðir háðar sér með lánveitingum og hagstæðri verslun. Kínverjar hafa einnig gert Ástrala fylgispaka sér og allir vita að sjálf Bandaríki Norður-Ameríku eru helstu skuldunautar Kínverja og hafa því fjármálakerfi stórveldisins í hendi sér. Og er þó fátt eitt upp talið.

Þriðja heimsstyrjöldin verður ekki háð með hefðbundnum vopnum því allir vita að þá verður enginn sigurvegari þegar upp verður staðið. Styrjöldin er háð með kænsku á viðskiptasviðinu og kapphlaupinu um ítök og áhrif. Heimurinn er að verða ein viðskiptaheild og rafrænir fjármunir fljúga milli heimsálfa með leifturhraða.

Tilgangur minn með þessu blaðakorni er að vekja umræðu um vaxandi áhrif Kínverja hér á landi. Síður en svo hef ég eitthvað við þá þjóð að athuga, þar sem alþýða manna virðist elskulegt og duglegt fólk og velkomið hingað. En undir blíðmælgi ráðamanna og auðjöfra þessarar ágætu þjóðar getur leynst ásetningur sem við erum grunlaus um og getur komið okkur í koll. Við Íslendingar erum gestrisin þjóð og við eigum að taka vel á móti gestum en við eigum jafnframt að vera á varðbergi og gjalda varhug.

Mig langar í þessu samhengi að vitna í skýrslu sem út kom í Noregi eftir síðari heimstyrjöldina um samband Noregs og Þýskalands fyrir stríð og er eftir Carl J. Hambro sem hafði verið forseti norska þingsins frá árinu 1926 og naut mikils álits og trausts á Stórþinginu. Carl var vel menntaður, kunnur rithöfundur og mælskumaður með afbrigðum. Í skýrslu sinni segir C.J. Hambro að það hafi vakið furðu og undrun í Noregi hve margir Þjóðverjar í innrásarliðinu töluðu norsku reiprennandi og einnig hve margir Norðmenn voru fylgisveinar innrásarhersins. Í skýrslu Hambros stendur.

„Leynt og ljóst höfðu Þjóðverjar lýst yfir vinarþeli sínu, já, og meira að segja ást sinni til Noregs. Leynt og ljóst höfðu þeir á allar lundir reynt að treysta sambönd og auka skilning milli landanna. Þeir efndu til norrænna móta í Þýskalandi og buðu þangað fjölda Norðmanna; þeir sendu fyrirlesara, leikara, söngvara og vísindamenn til Noregs og þeim var tekið opnum örmum og það var hlustað á þá af einlægni. Það sem kom Norðmönnum mest á óvart, var ekki árásin sjálf, heldur hitt, er þjóðin komst að raun um, að stórveldi, sem árum saman hafði lýst yfir vináttu sinni, kom nú allt í einu fram sem erkióvinur[…]og hafði árum saman unnið með þýskri nákvæmni að vandlega sundurliðaðri innrásaráætlun með áþján landsins og yfirdrottnun fyrir augum."

Einnig kom fram í skýrslu Hambros að allmörg þýsk ungmenni hefðu notið gistivináttu norskra heimila, lært tungumálið og vissulega var það sárt að sjá þessi ungmenni sem túlka fyrir innrásarliðið. Carl J. Hambro bætti því svo við að það sem gerðist í Noregi gæti gerst annars staðar og varast þyrfti 5. herdeildirnar sem vinna hljóðlaust.

Þessi grein mín hefur þann eina tilgang að vekja athygli á því að við Íslendingar þurfum að vera vel vakandi gagnvart ásælni annarra þjóða í íslenskt land og látum ekki stundarhagsmuni villa okkur sýn. Þrátt fyrir og ef til vill fremur vegna alheimsvæðingar verðum við að halda vöku okkar og verum minnug orða Einars Þveræings Eyjólfssonar sem talaði gegn því að Ólafur digri Noregskonungur fengi Grímsey að gjöf snemma á 11. öld því að þar mætti fæða her manns. Tökum gestum okkar af vinsemd en verum á varðbergi og höfum regluverk okkar skýrt og afdráttarlaust í sambandi við eignarhald lands og gæða þess. Með vinsemd og virðingu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×